Um sjóðinn

 

1. Grundvöllur og fjármagn til ráðstöfunar

Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum nr. 89/1966 sem sett voru á Alþingi þann 17. desember 1966. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga er hlutverk sjóðsins að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði. Í dag veitir sjóðurinn styrki á sínu sviði, en horfið hefur verið frá lánveitingum. Fjármagn til sjóðsins er tryggt í rammasamningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands og er þar samið um heildarfjárveitingu til sjóðsins á ársgrundvelli.  

 

2. Umsækjendur og styrkhæf verkefni

Umsækjendur koma úr röðum bænda, frá samvinnuhópum og aðilum innan

rannsókna- og þróunargeirans. Einnig veitir sjóðurinn styrki til fræðslumála og

í einhverjum tilvikum til viðfangsefna á sviði orkumála. Við ákvarðanatöku um úthlutanir til verkefna, sem hafa það að markmiði að stuðla að fjölgun atvinnutækifæra í sveitum, njóta forgangs þau verkefni sem fela í sér verulega nýbreytni. Nánar má lesa um styrkveitingar til verkefnaflokka hér að neðan:

 

a.     Bændur/styrkir til ábúenda lögbýla:

Veittir eru styrkir til atvinnunýsköpunar sem bændur á bújörðum standa fyrir í stað eða til viðbótar framleiðslu í hefðbundnum búgreinum. Hver bújörð getur átt kost á framlagi kr. 3.000 þús. að hámarki, en þó aldrei meira en sem nemur 30% af framkvæmdakostnaði. Framlögin eru bundin við framkvæmdir á viðkomandi bújörð. Hér undir falla hvers konar atvinnuskapandi viðfangsefni. Forgangs njóta þau verkefni sem fela í sér verulega nýbreytni. Möguleiki er á aukaframlagi, allt að helmings viðbót með sömu hlutfallstakmörkun, ef hægt er að sýna fram á að framkvæmd sé líkleg til að skapa tvö eða fleiri ársverk. Útborgun styrkja fer fram eftir að verkefni hefur komið til framkæmdar, skv. kostnaðaðarúttekt að fenginni verkumsögn.

 

b.     Félög:

Sjóðurinn veitir stuðning við atvinnuuppbyggingu í dreifbýli, sem stofnað er til á breiðari grunni með þátttöku heimaaðila. Fjárhæð framlaga í þessum flokki ráðast af umfangi og eðli þeirra verkefna sem um ræðir í hverju tilviki en tekur að jafnaði mið af framlagi heimaaðila.

 

c.     Stofnanir/fyrirtæki:

Undir þennan flokk falla ýmis önnur mál, sem snerta beina atvinnuuppbyggingu í dreifbýli en þó fyrst og fremst leiðbeininga-. rannsóknar- og þróunarverkefni af ýmsum toga, t.d á vegum rannsókna- og háskólastofnana. Tengjast þau hefðbundnum greinum landbúnaðar sem og þróun nýrra búgreina og atvinnustarfsemi í sveitum. Fjárhæð framlaga í þessum flokki ræðst af umfangi og eðli þeirra verkefna sem um ræðir í hverju tilviki. Að jafnaði eru styrkir þó ekki hærri en sem nemur 50% heildarfjárþarfar verkefnis.

 

d.     Fræðslumál:

Framleiðnisjóður hefur beitt sér fyrir aukinni fræðslu fólks er starfar í landbúnaði, svo sem endurmenntun bænda. Í dag er þessum stuðningi þannig háttað að Framleiðnisjóður veitir árlega fjármagni til Starfsmenntasjóðs BÍ sem síðan markar áherslur og sér um framkvæmd úthlutana. Framleiðnisjóður veitir styrki til framhaldsnáms (MSc eða PhD) á fagsviði sjóðsins og er kallað eftir umsóknum um slíka styrki sérstaklega einu sinni á ári með auglýsingu. 

 

4. Samstarf við aðra aðila

 Framleiðnisjóður hefur samráð við búgreinafélögin og fagráð búgreina um val og forgangsröðun viðfangsefna og fjármögnun.  Einnig er samvinna við búnaðarsambönd og ráðgjafaþjónustu (RML) um frágang umsókna til sjóðsins, eftirlit, úttektir og uppgjör vegna verkloka við framkvæmdir á lögbýlum sem hljóta styrk úr sjóðnum. Ennfremur eru atvinnufulltrúar víðs vegar um landið mikilvægir samstarfsaðilar.