Ársskýrsla Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 2015

Framleiðnisjóður hefur sent frá sér ársskýrslu og fréttatilkynningu um starfið á árinu 2015. Árskýrsluna ásamt reikningunum er að finna undir ársskýrsluboltanum hér að ofan en fréttatilkynningin kemur í ljós þegar smellt er á .....


 

 

FRÉTTATILKYNNING

frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

 

       Ársskýrsla Framleiðnisjóðs landbúnaðarins fyrir árið 2015 er komin út. Hún hefur að geyma yfirlit yfir starfsemi sjóðsins ásamt ársreikningi sjóðsins.  Tekjur Framleiðnisjóðs voru 107,9 mkr á s.l. ári, þar af 101 mkr. af fjárlögum. Fjármunatekjur námu 6,9 mkr. Auk þess komu 18,3 mkr. til endurráðstöfunar af eldri fyrirheitum sem ekki hafði verið vitjað.   Samþykkt framlög úr Framleiðnisjóði námu  107,1 mkr. Reksturskostnaður var 18,3 mkr. samanborið við 17,6 mkr árið 2014. Sjóðurinn er gerður upp með 0,8 mkr. tekjuafgangi árið 2015 og eigið fé Framleiðnisjóðs var i árslok 69,4 mkr. 

            Framleiðnisjóði bárust 75 formleg erindi á árinu 2015. Af þeim hlutu 54 erindi afgreiðslu með fyrirheiti um fjárstuðning en öðrum var synjað, viku í forgangsröð eða voru talin utan starfssviðs sjóðsins.  Langflest verkefni eru styrkt  þannig að krafizt er verulegs mótframlags umsækjenda, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félög eða opinbera aðila.

 

            Í ársskýrslu Framleiðnisjóðs er gerð grein fyrir starfi sjóðsins á árinu 2015 og þeim verkefnum sem hann hefur heitið stuðningi við en helztu viðfangsefni sjóðsins eru rakin í 7. kafla.  Í 8.kafla er gerð sérstök grein fyrir Starfsmenntasjóði BÍ en FL hefur um tveggja áratuga skeið stutt við bændanámskeið og endurmenntun á sviði landbúnaðar, lengst af með beinum hætti en nú með þeirri nýbreytni að stofnað hefur verið til sérstaks starfsmenntasjóðs Bændasamtakanna.
I 8.kafla má einnig sjá yfirlit yfir verkefni sem hlutu styrk úr þróunarsjóðum nautgripa- og sauðfjárræktarinnar, en sjóðurinn tók við umsýslu þeirra sjóða í júlí 2014. Sjóðurinn tók síðan við umsýslu þróunarsjóðs garðyrkjunnar í desember 2014, og undir sama kafla má sjá yfirlit yfir þau verkefni er hlutu styrk þar.  Að baki 9. kafla er að finna yfirlit yfir öll gefin fyrirheit um fjárstuðning sem eru birt í töflum 4 og 5. Athygli skal þó vakin á því að ekki er þar með sagt að framlag  hafi verið greitt út. Styrkloforð fyrnist á einu ári sé þeirra ekki vitjað og kemur það fé til endurúthlutunar á næsta ári þar á eftir. Hins vegar er útborgun framlaga  háð framvindu verkefna og ekki verður heldur allt að veruleika sem að er stefnt og fyrr var nefnt. Samtala óhafinna framlaga er færð til skuldar í efnahagsreikningi en á móti standa nægar innistæður í eignahlið ársreikningsins. 

Í nær hálfa öld hefur FL verið nýsköpunar- og þróunarsjóður landbúnaðarins. Mörg störf hafa orðið til í sveitum fyrir tilstuðlan fjárfestingastuðnings frá sjóðnum. Nauðsynlegt er að grípa öll tækifæri sem dreifbýlinu bjóðast til uppbyggingar atvinnulífs. Öflugt rannsókna-, nýsköpunar og þróunarstarf er öllum atvinnugreinum nauðsynlegt, þar er landbúnaðurinn ekki undanskilinn síður en svo. Nauðsynlegt er að framtíðaruppbygging sjóðsins og fjármögnun miðist af því að atvinnugreinin sjálf taki höndum saman um að móta framtíðarstefnu hvað varðar öflugt rannsóknar- og þróunarstarf og eflingu nýsköpunar.              

             Ársskýrsluna ásamt ársreikningum Framleiðnisjóðs er að finna á vefsíðu sjóðsins eftir slóðinni www.fl.is. Þar er einnig að finna helztu upplýsingar um sjóðinn.

Nánari upplýsingar um starf  Framleiðnisjóðs landbúnaðarins (FL) veita:

 

 Þórhildur Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri sjóðsins s. 430 4300

 Ríkharð Brynjólfsson stjórnarformaður sjóðsins s. 860-7310.

 

Framleiðnisjóður landbúnaðarins    -    Hvanneyrargötu 3    -    311 Borgarnes    -    sími: 430-4300    -    netfang: fl@fl.is